Enski boltinn

Ræða Scott Parker í hálfleik kveikti í West Ham liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
West Ham tryggði sér 3-3 jafntefli á móti West Brom í ensku úrvalsdeildinni í gær þrátt fyrir að hafa lent 3-0 undir eftir rétt rúmlega hálftíma leik. Carlton Cole skoraði eitt marka West ham í seinni hálfleik og hann hrósaði fyrirliðanum Scott Parker sem talaði kraft og kjark í sína menn í leikhléinu.

„Við vorum skelfilegir í fyrri hálfleiknum en Scott vakti okkur með magnaðri hvatningaræðu," sagði Carlton Cole sem minnkaði muninn í 3-2 áður en Demba Ba tryggði West ham stig með sínu öðru marki í leiknum.

„Scott var í ham í hálfleiknum og ég hef aldrei séð hann svona áður. Ef þið hefðuð verið þarna þá hefðu þið fengið tár í augun," sagði Cole.

„Scott Parker sýndi mikla ástríðu fyrir félaginu í búningsklefanum í hálfleik og sú ræða dreif okkur áfram. Við vildum ekki valda okkur sjálfum, stjóranum, fjölskyldum okkar eða stuðningsmönnunum vonbrigðum," sagði Cole en það hefði verið vel þess virði að vera fluga á vegg í klefanum í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×