Enski boltinn

Carragher: Dalglish er hetjan okkar Stevie

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Carragher.
Jamie Carragher. Mynd/AFP
Jamie Carragher og aðrir Liverpool-menn eru að sjálfsögðu í skýjunum eftir 1-0 sigur á Chelsea á Brúnni í gær. Carragher snéri aftur inn í liðið eftir axlarmeiðsli og lék sinn fyrsta leik síðan að Kenny Dalglish settist í stjórastólinn.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Roy þannig ég ég mun aldrei segja að hlutirnir hafi breyst til hins betra eða eitthvað í þá áttina. Félagið og við sem leikmenn gerðum ekki nógu mikið til þess að hjálpa stjóranum. Frammistaða liðsins var ekki nógu góð og stjórinn var gerður að blóraböggli," sagði Jamie Carragher.

„Hlutirnir hafa lagast og Kenny hefur fengið alla inn á sömu blaðsíðuna. Við ákveðum ekki hvort að hann fái að halda áfram með liðið því eigendurnir munu ráða því. Hann er hinsvegar hetjan okkar allra og þá sérstaklega hjá mér og Stevie [Gerrard]. Það gengur vel hjá okkur núna og auðvitað myndi ég elska það ef að hann fengi að halda áfram," sagði Carragher.





Mynd/Nordic Photos/Getty

Carragher átti mjög góðan leik í Liverpool-vörninni og bjargaði meðal annars einu sinni glæsilega frá Fernando Torres sem lék sinn fyrsta leik með Chelsea eftir að Liverpool seldi hann fyrir 50 milljónir punda.

„Góðir leikmenn koma og fara. Við höfum spilað á móti mörgum leikmönnum sem hafa verið áður hjá okkur og gott dæmi er það þegar við mættum Robbie Fowler þegar hann var hjá Leeds. Það er ekki auðvelt," sagði Carragher.

„Við vitum að Fernando er meðal bestu framherja í heimi og ég er viss um að hann sýnir það og sannar hjá Chelsea. Við verðum hinsvegar að einbeita okkur að okkar liði," sagði Carragher.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×