Enski boltinn

Sidibe sleit aftur hásin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mama Sidibe í leik með Stoke á síðasta tímabili.
Mama Sidibe í leik með Stoke á síðasta tímabili. Nordic Photos / Getty Images
Óheppnin eltir framherjann Mama Sidibe hjá Stoke City á röndum en hann sleit á dögunum hásin á æfingu hjá liðinu.

Þetta er í annað skiptið á sex mánuðum sem Sidibe verður fyrir meiðslum af þessum toga en hann var nýbyrjaður að æfa á ný eftir að hafa slitið hásin í fyrra skiptið og var ætlað að spila fljótlega með liðinu í ensku úrvalsdeildinni.

En Sidibe meiddist aftur á æfingu á fimmtudaginn og hefur Tony Pulis, stjóri Stoke, staðfest að þau tengist ekki meiðslunum sem hann varð fyrir í leik gegn Tottenham í ágúst er hann sleit hásin í fyrra skiptið.

„Þetta er sami ökklinn en í þetta sinn ofar á hásinni," sagði Pulis í viðtali á heimasíðu Stoke. „Þetta er ótrúleg óheppni hjá drengnum sem hefur mátt glíma við mörg meiðsli undanfarin tvö ár."

„En það er engin ástæða til að ætla annað en að hann geti aftur komið sér í gott form og byrjað að spila á ný."

Sidibe spilað með varaliði Stoke á þriðjudaginn síðasta og skoraði þá eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×