Enski boltinn

Er Glazer fjölskyldan með risatilboð í Man Utd frá Katar?

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ungir stuðningsmenn Manchester United með mótmælaspjald sem segir alla söguna.
Ungir stuðningsmenn Manchester United með mótmælaspjald sem segir alla söguna. Nordic Photos/Getty Images

Bandaríska Glazer fjölskyldan sem á enska úrvalsdeildarliðið Manchester United er að fara yfir ótrúlegt kauptilboð frá eignarhaldsfélagi sem staðsett er í Katar. Enska dagblaðið Daily Express greinir frá.

Samkvæmt frétt blaðsins eru Malcolm Glazer og synir hans að fara yfir smáatriði í kauptilboðinu sem hljóðar upp á 300 milljarða kr. eða 1.600 milljónir punda.

Bandarísku fjárfestarnir keyptu Man Utd árið 2005 fyrir 790 milljónir punda eða 148 milljarða kr.

Stór hluti stuðningsmanna Man Utd hefur ekki leynt andúð sinn á bandarísku eigendunum og hafa ýmis mótmæli verið haldin á undanförnum misserum.

Ef af þessu verður er komin upp sú staða að Manchester United og Manchester City væru bæði í eigu aðila frá Mið-Austurlöndum. Man City er í eigu fjárfestafélags frá Abu Dhabi er Mansour bin Zayed Al Nahyan aðaleigandi.

Katar verður gestgjafi heimsmeistaramótsins árið 2022 og er greinilegt að sú ákvörðun hefur kveikt fótboltaáhugann hjá fjársterkum aðilum þar á bæ.

Fjárfestar frá Katar hafa verið áberandi á Englandi undanfarin misseri og hafa þeir m.a. keypt Harrods verslanakeðjuna af Mohamed Al Fayed sem er eigandi Fulham.

Katar kemur einnig við sögu hjá Barcelona en nýverið gerði spænska félagið auglýsingasamning við fyrirtæki frá Katar og er það í fyrsta sinn sem Barcelona fær greitt fyrir að vera með auglýsingu á keppnisbúningum sínum.

Manchesterliðin mætast í grannaslag í hádeginu á morgun á Old Trafford þar sem Man Utd tekur á móti grannaliðinu í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar. Leikurinn hefst 12.45 og er hann í beinni útsendingu á Stöð 2 sport 2.



Leikir helgarinnar í enska boltanum á Stöð 2 sport 2.













Fleiri fréttir

Sjá meira


×