Enski boltinn

Nani um City-leikinn: Þetta er skyldusigur hjá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani.
Nani. Mynd/Nordic Photos/Getty
Portúgalinn Nani segir að Manchester United verði að vinna Manchester City til að bæta fyrir tapið á móti Úlfunum um síðustu helgi. Leikur Manchester-liðanna hefst klukkan 12.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport 2.

„Tapið á móti Wolves var slys og menn voru sárir og svekktir í búningsklefanum. Nú fáum við tækifæri viku síðar til að gleðja stuðningsmenn okkar á ný," sagði Nani í viðtali við The Sun.

„Það er skylda hjá okkur að vinna City. Við myndum þá ná góðu forskoti á þá í baráttunni um titilinn og þá værum við líka búnir að ná í fjögur stig á móti þeim í tímabilinu," sagði Nani.

„Ég hef alltaf verið bjartsýnn og við erum líklegastir til að vinna enska titilinn," sagði Nani.

Manchester United þarf að hafa auga á sínum gamla félaga Carlos Tevez í þessum leik.

„Carlos var félagi okkar en nú er hann orðinn andstæðingur. Við munum reyna að stoppa hann með því að sjá fyrir það sem hann ætlar sér að gera og passa upp á að hann fái aldrei frið. Því minna sem hann er með í leiknum því betra fyrir okkur," sagði Nani.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×