Íslenski boltinn

Albert ákveður sig um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Albert gæti mögulega verið á leið frá Fylki, en hann var einn sterkasti maður liðsins í sumar.fréttablaðið/anton
Albert gæti mögulega verið á leið frá Fylki, en hann var einn sterkasti maður liðsins í sumar.fréttablaðið/anton
Albert Brynjar Ingason, einn eftirsóttasti knattspyrnumaðurinn á markaðnum í dag, ætlar líklega að ákveða framhaldið nú um helgina. Albert hefur verið á mála hjá Fylki en samningur hans rann út fyrr í mánuðinum og hefur hann verið að ræða við önnur félög.

„Ég hef rætt við fimm félög sem öll enduðu í efri hluta deildarinnar í haust en líka mikið við Fylkismenn. Ég hef gefið þeim tíma til að vinna í sínum málum og mér líst virkilega vel á þjálfarateymið sem hefur verið ráðið til starfa,“ sagði hann, en Ásmundur Arnarsson er nýr þjálfari Fylkis og Haukur Ingi Guðnason aðstoðarmaður hans. Þá mun Björgólfur Takefusa spila með Fylki á ný á næsta sumri.

„Það er spennandi tilhugsun að spila með honum en ég verð líka að líta á heildarmyndina. Ég hef rætt við félög sem hafa verið að vinna titla á undanförnum árum og er núna að velta fyrir mér hvort ég vilji fara í þann pakka eða hjálpa Fylki í að komast í þá baráttu á næstu árum. Svo skiptir líka máli hvernig menn ná saman við samningsborðið. Það er að mörgu að huga,“ sagði Albert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×