Erlent

Fjölskylda hinnar myrtu í áfalli

Móðir, bróðir og systir hinnar myrtu ræddu við fjölmiðla á Ítalíu í gær.fréttablaðið/AP
Móðir, bróðir og systir hinnar myrtu ræddu við fjölmiðla á Ítalíu í gær.fréttablaðið/AP
Amanda Knox hélt heim til Bandaríkjanna í gær frá Ítalíu, þar sem hún var á mánudag sýknuð af morðákæru eftir að hafa dvalist fjögur ár í fangelsi.

Fjölskyldu hennar var mjög létt og bjó sig undir að taka fagnandi á móti henni. Á hinn bóginn var fjölskylda Meredith Kercher í áfalli eftir niðurstöðu áfrýjunardómstólsins, sem sneri við dómi undirréttar.

„Þetta var dálítið áfall,“ sagði Stephanie Kercher, systir hinnar myrtu. „Þetta er mjög óþægilegt. Við höfum enn engin svör fengið.“

Saksóknari ætlar að áfrýja málinu til hæstaréttar og segist sannfærður um að þá verði Knox og Sollecito fundin sek.

Árið 2009 hlaut Knox 26 ára fangelsisdóm í undirrétti fyrir að hafa myrt Meredith Kercher í íbúð þeirra haustið 2007, þegar þær voru báðar um tvítugt. Kærasti Knox, Raffaele Sollecito, hlaut 25 ára fangelsi fyrir aðild sína að morðinu, en hann var einnig sýknaður á mánudag. Þriðji maðurinn, Rudy Guede, hefur einnig hlotið dóm fyrir aðild sína, en dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki staðið einn að verki.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×