Erlent

Óttast öfluga eftirskjálfta

Þessi mynd náðist af ferju sem hafði strandað á byggingu í borginni Otsuchi í Iwate í norðurhluta Japans. Gríðarleg eyðilegging hefur orðið í Japan af völdum flóðbylgjunnar sem skall á landinu. Mynd/AP
Þessi mynd náðist af ferju sem hafði strandað á byggingu í borginni Otsuchi í Iwate í norðurhluta Japans. Gríðarleg eyðilegging hefur orðið í Japan af völdum flóðbylgjunnar sem skall á landinu. Mynd/AP
Jarðfræðingar óttast að öflugir eftirskjálftar muni ríða yfir Japan á næstu dögum í kjölfar jarðskjálftans sem skók landið á föstudagsmorgun. Talið er að skjálftarnir geti náð allt upp í 7 á Richter en upphaflegi skjálftinn var af stærðinni 9 á Richter.

Hamfarirnar í Japan eru mesta áfall sem dunið hefur á þjóðinni síðan í síðari heimsstyrjöld. Þetta sagði Naoto Kan, forsætisráðherra Japans í sjónvarpsávarpi í gær. Talið er að yfir tíu þúsund manns hafi farist vegna fljóðbylgjunnar sem gekk yfir Miyagi-svæðið í norðausturhluta landsins í kjölfar jarðskjálftans.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í kjarnorkuverinu í hafnarborginni Onagawa vegna geislunar sem mældist þar yfir hættumörkum. Rannsókn stóð yfir í gær á því hvaðan geislunin kom en þrír kjarnakljúfar versins eru ekki sagðir í hættu.

Notaður var sjór til að kæla niður kjarnakljúf í öðru kjarnorkuveri í Fukushima Dai-ichi. Óttast var að sprenging gæti orðið í kljúfnum rétt eins og gerðist með annan kjarnakljúf í sama kjarnorkuveri á laugardag. Forsætisráðherrann Kan sagði að ástandið í kjarnorkuverinu væri mjög alvarlegt. Þar hefur einnig verið lýst yfir neyðarástandi vegna mikillar geislunar en nítján manns hafa orðið fyrir geislun. Fari svo að það mistakist að halda kjarnakljúfunum í Fukushima gangandi, það er að ekki takist að halda hitanum í skefjum, gætu úraníum og önnur hættuleg efni komist út í andrúmsloftið. Það gæti valdið miklu mengunarslysi. Ef það gerist telja sérfræðingar að skaðinn verði engu að síður mun minni en þegar kjarnorkuslysið í Tjernóbyl varð árið 1986 þegar kjarnakljúfur sprakk og mikil geislun barst um Evrópu.

Víða er rafmagnslaust í Japan og hefur það haft áhrif á björgunarstarf. Yfir 180 þúsund manns hafa verið fluttir í burtu frá Miyagi í neyðarskýli, sem eru mörg hver án rafmagns. Ákveðið hefur verið að fjöldi hjálparstarfsmanna á svæðinu verði tvöfaldaður og fari upp í eitt hundrað þúsund. Að minnsta kosti 1,4 milljónir heimila í Japan hafa verið án vatns síðan jarðskjálftinn reið yfir og rafmagnslaust er á um 1,9 milljónum heimila.

„Ástandið í landinu vegna jarðskjálftans, flóðbylgjunnar og kjarnorkuveranna er að mörgu leyti það alvarlegasta í landinu í 65 ár, eða frá síðari heimsstyrjöldinni," sagði forsætisráðherrann Kan. -fb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×