Enski boltinn

Pele: Chicharito getur orðið næsti Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Brasilíska goðsögnin Pele telur að Javier Hernandez, leikmaður Manchester United, geti orðið jafn góður og Argentínumaðurinn Lionel Messi hjá Barcelona.

Pele er sjálfur af mörgum talinn vera einn besti knattspyrnumaður heims frá upphafi en Messi er í dag ein skærasta stjarna knattspyrnuheimsins.

Hernandez hefur slegið í gegn á sínu fyrsta tímabili í Englandi. Hann hefur skorað 20 mörk í öllum keppnum og farið fram úr björtustu vonum. Manchester United á titilinn vísan og það er ekki síst Hernandez að þakka.

„Það er enginn vafi á því að Hernandez er efnilegur leikmaður. Hann er frábær,“ sagði Pele. „Ég hef séð nokkra leiki með honum í sjónvarpinu og hann er stórkostlegur knattspyrnumaður.“

„Hann gæti vel orðið næsti Messi vegna þess að hann býr yfir miklum hæfileikum. Hann hefur komið mjög á óvart því hann skorar mikið af mörkum.“

Manchester United og Barcelona mætast einmitt í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þann 28. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×