Knattspyrnumaðurinn Pétur Georg Markan hefur verið lánaður til BÍ/Bolungarvíkur frá Víkingi. Pétur Georg er kominn vestur og mun mæta á sína fyrstu æfingu klukkan 10 í fyrramálið á Ísafirði.
Samúel Samúelsson formaður knattspyrnudeildar BÍ/Bolungarvíkur staðfesti þetta í samtali við Vísi. Hann sagði málið hafa gengið hratt fyrir sig eftir að Vestfirðingar heyrðu af því að Pétur hefði ráðið sig í vinnu á Súðavík.
Pétur Georg sagði í samtali við fréttamann Vísis fyrr í dag að hann myndi mögulega sprikla með liðinu eitthvað í sumara. Pétur hefur fengið leikheimild hjá BÍ/Bolungarvík sem mætir KR í undanúrslitum Valitor-bikars karla á sunnudaginn.
Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur munu standa vaktina á skemmun í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í kvöld þar sem skráning í Mýrarboltann fer fram. Aðspurður sagði Samúel það hluta af fjáröflunarleið félagsins en var harður á því að leikmenn myndu hegða sér. Menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því.
