Íslenski boltinn

Eyjamenn ætla að kaupa Gunnar Má frá FH

Guðjón Guðmundsson skrifar
Gunnar Már Guðmundsson
Gunnar Már Guðmundsson Mynd/Anton
Gunnar Már Guðmundsson er á leiðinni í ÍBV og mun væntanlega gera þriggja ára samning við Eyjaliðið gangi allt saman upp. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu í morgun og Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta við íþróttadeild.

Gunnar Már var í láni hjá Þór frá FH síðasta sumar og hann á enn eftir eitt ár af samningi sínum við Hafnarfjarðarliðið. ÍBV þarf að kaupa miðjumanninn frá FH-ingum eigi Gunnar Már að spila með liðinu.

Eyjamenn þurfa að fylla skarðið sem Finnur Ólafsson skilur eftir sig þótt að Finnur og Gunnar Már séu ólíkir miðjumenn. Finnur samdi við Fylki á dögunum.

Magnús Gylfason segir að frekari leikmannakaup séu ekki inn í myndinni fyrir áramót og telur að Eyjamenn séu ágætlega settir hvað varðar leikmannahóp sinn.

Magnús viðurkenndi samt að hann ætlaði að skoða fleiri leikmenn og þar á meðal er varnarmaður frá Hollandi sem Eyjamönnum líst mjög vel á.

Eyjamenn hafa endað í 3. sæti Pepsi-deildarinnar undanfarin tvö tímabil en Heimir Hallgrímsson hætti sem þjálfari liðsins í haust eftir fimm ára starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×