Enski boltinn

Sir Alex: Wayne og Berbatov þurfa að fara að standa sig á útivelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov og Wayne Rooney.
Dimitar Berbatov og Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, man ekki eftir fallegra marki á Old Trafford heldur en sigurmark Wayne Rooney á móti Manchester City í Manchester-slagnum í gær. Rooney skoraði markið með stórglæsilegri hjólhestaspyrnu.

„Þetta var magnað mark. Markið hans Nani var líka frábært mark en það mun enginn tala um það mark eftir að hafa séð sigurmarkið hans Rooney. Það munu allir tala um þetta ótrúlega mark hjá Rooney," sagði Sir Alex Ferguson.

„Ég man ekki eftir flottara marki á þessum velli en Rooney hitti boltann frábærlega á móti Newcastle fyrir nokkrum árum en það var ekkert í líkingu við þetta," sagði Ferguson.

„Ég verð samt að segja að ég þarf að fá Wayne og Berbatov til að fara standa sig í útileikjunum. Þeir hafa ekki verið nærri því eins öflugir á útivelli og þeir eru á heimavelli," sagði Ferguson.

Wayne Rooney hefur skorað fimm mörk í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og þar af hafa fjögur þeirra komið á Old Trafford. Dimitar Berbatov hefur skorað 15 af 19 mörkum sínum á Old Trafford.

„Það er mjög furðulegt af því að þeir hafa báðir svo mikla hæfileika til þess að gera út um leiki. Þegar þeir detta í gang á útivelli þá mun það skipta Manchester United mjög miklu máli," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×