„Þetta eru bara svona móment sem koma örsjaldan, nánast aldrei. Ég sneri baki í markið. Það kom hár bolti á mig og það var ekki mikið annað sem ég gat gert," sagði Óli Baldur Bjarnason leikmaður Grindavíkur. Hann tryggði sínum mönnum stig gegn KR í kvöld með sannkölluðu draumamarki.
Mark Óla Baldurs kom með glæsilegri bakfallsspyrnu sem sveif í bláhornið, óverjandi fyrir Hannes Þór í marki KR.
„Ég hef verið að fá dauðafæri í undanförnum leikjum en ekki náð að skora. Svo koma mörk eins og á móti Keflavík sem kom upp úr engu líkt og þetta. Þetta er ekkert sem menn æfa á æfingum," sagði Óli Baldur.
Óli Baldur sagðist líklega verða brosandi á leiðinni heim Reykjanesbrautina enda markið stórkostlegt.
„Ég held að þetta sé flottasta mark sem ég hef skorað," sagði markaskorarinn.
