Enski boltinn

Ferguson: 84 stig duga til sigurs

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, hefur sett liði sínu það markmið að ná 84 stigum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Sá stigafjöldi ætti að duga United til þess að verða meistari að því er Ferguson telur.

United leiðir deildina með fimm stigum sem stendur og hefur ekki enn tapað leik í deildinni. Alls hefur United leikið 29 leiki í röð í deildinni án þess að tapa. Það er jöfnun á félagsmeti.

United á 14 leiki eftir á tímabilinu og Ferguson telur að 10 sigrar ættu að duga til.

"Ef við nælum í 30 stig í viðbót þá eigum við góðan möguleika. Ég held að 84 stig myndu klárlega duga til þess að klára dæmið. Við þurfum því að næla í 30 stig í viðbót," sagði Ferguson.

"Stöðugleiki er lykillinn að árangri og það hefur ekkert vantað upp á hann hjá okkur. Leikmenn treysta hver öðrum. Það skiptir máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×