Enski boltinn

Rooney tileinkaði stuðningsmönnum United draumamarkið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney tileinkaði stuðningsmönnum Manchester United draumamarkið sem hann skoraði á móti nágrönnunum í Manchester City. Rooney skoraði sigurmarkið í leiknum með stórkostlegri hjólhestaspyrnu á 78. mínútu leiksins. Hann viðurkenndi eftir leikinn að þetta hafi besta markið sem hann hefur skorað á ferlinum og það fyrsta sem hann hefur skorað með slíkri spyrnu.

„Stuðningsmenn Manchester United áttu þetta inni frá mér," sagði Wayne Rooney. „Ég hef ekki átt mitt besta tímabil og ég veit hversu stór þessi leikur er fyrir Manchester-borg. Ég vona að þeir hafi haft gaman af þessu," sagði Rooney.

„Nú er markmiðið mitt að halda áfram að skora og hjálpa okkur að vinna titilinn aftur," sagði Rooney.

„Hin liðið þurfa að reyna að ná okkur en við þekkjum það vel að vera á toppnum og hvernig á að komast yfir endalínuna. Við höfum mikla reynslu, bæði stjórinn og leikmennirnir, og vitum því hvað við þurfum að gera," sagði Rooney.

„Vonandi höldum við þessu forskoti eða bætum við það í næstum sex til sjö leikjum og þá mun þetta líta vel út," sagði Rooney sem gaf lítið fyrir þau ummæli Roberto Mancini að City-liðið hafi verið óheppið í leiknum.

„Ég tel ekki að þeir hafi verið eitthvað óheppnir. Þeir spiluðu ágætlega, hreyfðu boltann vel en þeir ógnuðu okkur ekki mikið. Við áttum skilið að vinna þennan leik," sagði Rooney.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×