Enski boltinn

Ferguson vill meiri tíma með unglingunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að reglur enska knattspyrnusambandsins um þjálfun ungmenna séu of strangar.

Enskum félögum er nú aðeins heimilt að þjálfa yngri leikmenn sína í eina og hálfa klukkustund í dag. Ferguson segir að það sé of lítið og bendir á hvernig þessum málum er háttað hjá Barcelona.

„Barcelona getur verið með sína stráka á æfingum allan liðlangann daginn ef þeim sýnist svo,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla.

Börsungar unnu 3-1 sigur á United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hreinlega yfirspiluðu ensku meistarana.

„Það er mikið forskot fyrir þá og þeirra sýn á knattspyrnuna er frábær. Við vonum að þjálfarar okkar fái í framtíðinni meiri tíma til að sinna krökkunum okkar, kenna þeim undirstöðuatriðin og það sem þarf til að geta haldið boltanum innan liðsins.“

„Við erum góðir en ekki jafn góðir og Barcelona eins og er. Þetta er því mikil og góð áskorun fyrir okkur og það er af hinu góða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×