Enski boltinn

Wenger neitar að gefast upp: Þetta er allt galopið ennþá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, ætlar ekkert að gefa upp vonina að gera að Arsenal að enskum meisturum á ný þrátt fyrir að liðið hafi misst tvo síðustu leiki sína niður í jafntefli og sé sex stigum á eftir toppliði Manchester United þegar aðeins fimm leikir eru eftir.

„Þetta er allt galopið ennþá og við verðum að fara gera okkur tilbúna fyrir næsta leik á móti Bolton og halda áfram að berjast eins og við höfum verið að gera," sagði Arsene Wenger.

„Liðið er með frábært hugarfar þó að við séum ekki að uppskera stigin samkvæmt því. Við erum samt furðulega stöðugir og höfum nú leikið 16 deildarleiki í röð án þess að tapa. Vandamálið er bara að við erum að gera of mörg jafntefli," sagði Wenger.

„Við verðum að fara finna leiðir til þess að breyta þessum jafnteflum í sigra en titilbaráttan er galopin ekki síst þar sem Chelsea hefur blandað sér í baráttuna og á eftir að spila við United. Við verðum bara að halda okkar trú og berjast áfram. Við gerum ekki alltaf jafntefli þegar við náum því að skora þrjú mörk," sagði Wenger en Arsenal gerði 3-3 jafntefli við Tottenham í gær eftir að hafa komist í 3-1.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×