Enski boltinn

Tevez ætti að ná bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri  Manchester City, segir góðar líkur á því að fyrirliði sinn, Argentínumaðurinn Carlos Tevez, verði orðinn góður af meiðslum sínum fyrir bikarúrslitaleikinn á móti Stoke sem fer fram á Wembley 14.maí næstkomandi.

Tevez missti af undanúrslitaleiknum á móti Manchester United um síðustu helgi þar sem hann meiddist aftan í læri í leiknum á undan sem var á móti Liverpool.

City-menn búast við því að Tevez missi einnig af næstu fjórum deildarleikjum liðsins en þar er félagið í hörku baráttu um Meistaradeildarsæti við Tottenham.

„Ég vonast til þess að Carlos nái sér í tíma fyrir leikinn enda höfum við enn fjórar vikur fram að úrslitaleiknum," sagði Roberto Mancini.

Þetta verður fyrsti bikarúrslitaleikur Manchester City síðan 1981 og félagið er að reyna að vinna sinn fyrsta titil síðan 1976. Carlos Tevez náði heldur aldrei að vinna bikarinn þegar hann var hjá Manchester United á sínum tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×