Enski boltinn

Malouda: Þrjú lið eiga enn möguleika á titlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florent Malouda fagnar marki í vikunni.
Florent Malouda fagnar marki í vikunni. Mynd/DIENER/Leena Manhart Eiríkur Stefán Ásgeirss
Florent Malouda segir að Chelsea sé komið aftur inn í titilbaráttuna eftir að liðið er nú aðeins sex stigum á eftir Manchester United þegar aðeins fimm leikir eru eftir.

Chelsea var langt á eftir United fyrir mánuði síðar en hefur nálgast toppinn óðfluga á síðustu vikum eftir sex sigra í síðustu sjö leikjum sínum.

Chelsea á eftir að fara til Old Trafford og United-liðið á einnig eftir að sækja Arsenal heim á lokasprettinum.

„Það eiga þrjú lið enn möguleika á titlinum en það eina í boði fyrir okkur er að vinna alla okkar leiki og reyna að setja pressuna á Man United," sagði Malouda sem skoraði tvisvar í 3-1 sigri liðsins á Birmingham á Stamford Bridge á miðvikudagskvöldið.

„Þeir þurfa að fara til Arsenal en við þurfum fyrst og fremst að klára okkar leiki. Við verðum að vera áfram auðmýkir og megum ekki gleyma því hvar við vorum. Liðið hefur þurft að sigrast á erfiðleikum en er nú komið upp í annað sætið og við erum farnir að spila okkar besta bolta á ný. Við verðum núna að gefa allt sem við eigum í lokasprettinn," sagði Malouda.

Florent Malouda hefur nú skorað tólf mörk í ensku úrvalsdeildinni sem er jöfnun á hans besta árangri. Hann þarf því aðeins eitt mark til viðbótar til þess að setja nýtt persónulegt met.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×