Enski boltinn

Scholes vill vinna 20. titilinn með United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Scholes í leiknum gegn Barcelona um helgina.
Scholes í leiknum gegn Barcelona um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Paul Scholes hefur gefið sterklega til kynna að hann ætli sér að halda áfram að spila með Manchester United á næsta tímabili.

Samningur Scholes við félagið rennur út í sumar en Alex Ferguson, stjóri liðsins, hefur áður sagt að hann vilji halda Scholes sem er 36 ára gamall. Ryan Giggs, sem er ári eldri, hefur til að mynda ákveðið að halda áfram.

Scholes hefur átt frábæran feril með United en hann hefur ekkert enn gefið út um hvort hann ætli að spila áfram eða ekki.

„Áskorunin er alltaf að vinna næsta titil,“ sagði Scholes við enska fjölmiðla í dag en þá voru leikmenn United að fagna enska meistaratitlinum sem félagið vann í vor. Það var sá nítjándi frá upphafi.

„Við munum fagna þessum í dag, fara svo í sumarfrí og byrja svo að hugsa um næsta titil,“ sagði Scholes en United er nú orðið sigursælasta félag Englands frá upphafi. Það var áður Liverpool sem hefur unnið átján meistaratitla.

„Við höfum náð frábærum árangri en nú viljum við halda áfram og auka bilið enn frekar. Nú er ætlunin að vinna 20. titilinn og munum við gera allt sem við getum til að vera í þessari baráttu aftur á næsta ári.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×