Enski boltinn

Ferdinand heyrði ekki hvað Terry sagði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Anton Ferdinand hefur staðfest það sem haldið hefur verið fram í enskum fjölmiðlum alla vikuna - að hann vissi ekki hvað John Terry á að hafa sagt við hann fyrr en eftir að leik Chelsea og QPR lauk um síðustu helgi.

Gríðarlega mikið hefur verið fjallað um málið í vikunni en málið er nú til rannsóknar bæði hjá enska knattspyrnusambandinu sem og lögreglunni í Lundúnum.

Strax eftir leikinn fóru sjónvarpsupptökur úr leiknum um netið þar sem svo virðist sem að Terry hafi haft niðrandi orð um litarhaft Ferdinand. Það heyrist ekki á upptökunum en það er það sem Terry virðist segja.

Terry sjálfur neitar því ekki að hafa notað umrædd orð en ekki í því samhengi sem honum er gefið að sök. Hann segist hafa sagt: „Nei, ég kallaði þig ekki helvítis [...]“.

Terry sagði svo sjálfur eftir leikinn að hann hefði rætt þetta ítarlega við Ferdinand og að það hefði ekkert illt verið á milli þeirra. En Ferdinand hefur nú sagt að hann hafði ekki hugmynd um hvað málið snerist þegar þeir ræddu saman strax eftir leikinn.

„Ég vissi ekki að kynþáttahatur væri enn við lýði í knattspyrnunni fyrr en um síðustu helgi,“ er haft eftir Ferdinand í enska blaðinu The People í dag. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað gerðist fyrr en eftir að ég var farinn frá leikvanginum. Þetta var ótrúlegt, ég trúi bara þessu ekki.“

„Ég þarf ekki að segja neitt meira. Þetta er á YouTube. Það geta allir séð hvað hann sagði. Hvað heldur þú að hann hafi sagt? Jæja, þetta er í höndum enska knattspyrnusambandsins núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×