Enski boltinn

Capello líkir Jack Wilshere við Baresi, Maldini og Raúl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshire.
Jack Wilshire. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jack Wilshire, miðjumaður Arsenal, verður í fyrsta sinn í byrjunarliði enska landsliðsins í kvöld þegar Englendingar mæta Dönum í vináttulandsleik á Parken í Kaupmannahöfn. Fabio Capello hefur mikla trú á stráknum og ætlar að byggja enska landsliðið í kringum hann.

„Hann er búinn að bæta sig mikið á fimm mánuðum. Nú þarf hann að öðlast meiri reynslu í stórum leikjum, leikjum í Meistaradeildinni og á móti hinum stóru klúbbunum í ensku úrvalsdeildinni. Með því fengi hann dýrmæta reynslu," sagði Fabio Capello um hinn 19 ára gamla Wilshire.

„Hann er bara 19 ára gamall en ég man eftir því að bestu leikmennirnir sem ég hef þjálfað, Franco Baresi, Paolo Maldini og Raúl, byrjuðu allir mjög ungir. Þeir höfðu það mikla hæfileika og nú verðum við bara að bíða róleg og leyfa Wilshere að bæta sig enn meira," segir Capello.

„Hann mun fá tækifæri í kvöld en þetta er engin úrslitstund fyrir hann. Hann hefur hæfileikana en eldri leikmennirnir í liðinu þurfa líka að hjálpa honum. Ég vona að hann eigi eftir að spila fjölda leikja fyrir England því það þýddi að við værum komnir með mann til þess að spila fyrir framan þá fjóra öftustu," sagði Capello.

„Ég hef talað við Arsene Wenger um bestu stöðuna fyrir Wilshere. Hann byrjaði sem sóknartengiliður en hann getur einnig spilað aftar á vellinum. Ég hef notað dæmi um hvernig Claude Makelele færði sig aftar en annað dæmi er Andrea Pirlo sem byrjaði að spila fyrir aftan framherjann en fór síðan í það að sðila fyrir framan vörnina," sagði Capello og bætti við:

„Klár og klókur leikmaður getur spilað allstaðar á vellinum og við höfum ekki enska leikmenn í dag sem geta spilað þessa stöðu eins og Wilshire," sagði Capello.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×