Enski boltinn

Scholes: City er að nálgast okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes fagnar sigurmarki sínu á móti City síðasta vor.
Paul Scholes fagnar sigurmarki sínu á móti City síðasta vor. Mynd/AFP
Paul Scholes lítur ekki á lið Manchester City sem aðalandstæðing United-liðsins í baráttunni um enska meistaratitilinn. Liðin mætast á Old Trafford í hádegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni.

„Þeir eru vissulega að nálgast okkur en ég er ekki viss um hvort þeir séu komnir í sama flokk og Chelsea og Arsenal. Þeir verða að vinna einhverja titla til verða aðalandstæðingar okkar í titilbarátunni," sagði Paul Scholes.

„Þeir munu berjast um að vinna titil í vetur og þannig verður það einnig næstu árin ef þeir halda áfram að bæta sig," sagði Scholes.

Scholes segir að Manchester-slagirnir hafi breyst með uppkomu City-liðsins á síðustu árum.

„Þetta snýst ekki lengur bara um stoltið því bæði lið eru núna farin að berjast um titlana í boði og það breytir mikilvægi þessara leikja," sagði Scholes.

„Fyrir nokkrum árum voru þeir í botnbaráttunni eða ekki í deildinni og við vorum því alltaf miklu sigurstranglegri. Við náðum samt ekki alltaf að vinna þá. Nú eru þeir komnir með marga frábæra leikmenn sem gerir þessa leiki enn áhugaverðari," sagði Scholes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×