Enski boltinn

Mancini: Manchester United hefur andlegt forskot á City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/AFP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, sagði á blaðamannfundi fyrir Manchester-slaginn á morgun, að Manchester United hefði ennþá andlegt forskot á City-liðið þar sem að United-liðið er búið að vinna svo mikið á undanförnum árum.

Þetta verður í fyrsta sinn í mörg ár sem Manchester-liðin mætast á þessum tíma á leiktíðinni þar sem bæði félög eru í baráttunni um meistaratitilinn.

„Það sem United hefur kannski fram yfir okkur er meiri sigurhefð því þeir hafa unnið svo mikið á undanförnum árum. Það er aðalmunurinn á þessum liðum," sagði Roberto Mancini.

Manchester City hefur ekki unnið enska meistaratitilinn síðan árið 1968 en United hefur unnið ellefu meistaratitla síðan þá.

„Ég held að þetta muni breytast þegar við förum að vinna titla. Það er bara þannig að þegar þú ert í liði sem hefur unnið samfellt í 20 ár þá fylgir því mikill andlegur styrkur. Þegar liðið er kannski ekki að spila vel þá vita menn að liðið sér það sterkt að það á alltaf möguleika á að vinna leikinn haldi menn hreinu," segir Mancini.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vinna eitthvað á þessu tímabili til að byrja að breyta þessu, ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn eða Evrópudeildina," sagði Mancini.

Manchester City er nú fimm stigum á eftir United en er einnig búið að spila leik meira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×