Enski boltinn

Vidic til Real og Villa til Liverpool?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nemanja Vidic á æfingu Manchester United.
Nemanja Vidic á æfingu Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Slúðurpressan á Englandi tekur sér sjaldan frí en í dag voru tveir af þekktustu knattspyrnumönnum heimsins sagðir á leið frá sínum félögum.

Alex Ferguson er sagður í Daily Mail í dag sagður reiðubúinn að selja varnarmanninn Nemanja Vidic frá Manchester United til Real Madrid næsta sumar.

Real mun hafa lengi haft augastað á Vidic sem var gerður að fyrirliða United fyrir ekki svo löngu síðan. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Vidic er sagður á leið til Spánar en hann skrifaði svo undir nýjan samning við United í fyrra.

Ferguson er sagður efins um að Vidic sé lengur með einbeitinguna í fullkomnu lagi og að hann hafi síður en svo verið ánægður með frammistöðu hans í haust. Vidic missti þó af upphafi tímabilsins vegna meiðsla.

Hann mun því vera reiðubúinn að selja Vidic fyrir rétta upphæð, þó ekki fyrr en um næsta sumar.

Þá er David Villa orðaður við Liverpool í bresku pressunni en hann er sagður vera ósáttur við lífið hjá Barcelona. Honum mun hafa sinnast við Lionel Messi en þær fréttir hafa verið sagðar ósannar af fulltrúum Barcelona.

Hvort Liverpool hafi efni á að kaupa Villa verður að koma í ljós en það er ljóst að báðum fréttum verður að taka með fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×