Enski boltinn

Hermann leitaði bót meina sinna á Íslandi - fær nýjan stjóra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hermann Hreiðarsson hefur verið á Íslandi síðustu dagana þar sem hann freistaði þess að ná sér góðum af meiðslum í hásin sem hafa plagað hann síðustu vikur og mánuði.

Í morgun bárust svo fregnir af því að Michael Appleton hafi í dag ráðinn nýr þjálfari Portsmouth, félags Hermanns, og að hann hafi skrifað undir þriggja og hálfs árs samning þess efnis.

Hermann hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum til þessa á leiktíðinni en hann sleit hásin fyrir einu og hálfu ári síðan í hinum fætinum.

„Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir mig," sagði Hermann í samtali við fréttavef Sky Sports. „Ég reyndi að byrja að æfa á nýjan leik fyrir nokkrum vikum síðan en það gekk ekki. Ég er á Íslandi þar sem ég er að prófa annars konar meðferð og vonandi ber hún árangur. Ég fer aftur til Bretlands á morgun (í dag) og vonandi get ég byrjað að æfa aftur á mánudaginn."

28 dagar eru liðnir síðan að Steve Cotterill hætti sem stjóri Portsmouth en Appleton er aðeins 35 ára gamall - einu ári yngri en Hermann. Steve Coppell, Ole Gunnar Solskjær og Sean O'Driscoll voru allir orðaðir við félagið.

Appleton var áður aðstoðarþjálfari West Brom en hann lagði skóna á hilluna árið 2003, þá 27 ára gamall, vegna þrálátra meiðsla. Hann spilaði síðast með West Brom en einnig með Preston North End í nokkur ár. Hann hóf ferilinn sem unglingur hjá Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×