Enski boltinn

Jack Wilshere lofar því að klára ferilinn hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Jack Wilshere.
Arsene Wenger og Jack Wilshere. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jack Wilshere hefur ekkert spilað með Arsenal á þessu tímabili en þessi 19 ára miðjumaður sló í gegn á síðustu leiktíð en er enn að ná sér eftir erfið ökklameiðsli. Wilshere segist ekki geta hugsað sér að spila fyrir annað félag en Arsenal.

Wilshere fór í stóra ökklaaðgerð fyrir sex vikum síðan og fékk góðar fréttir eftir myndatöku í gær. Þar kom í ljós að hann mætti fara að láta reyna meira á ökklann í endurhæfingunni. Hann spilar samt ekki aftur með Arsenal fyrr en á nýja árinu.

„Ég lofa ykkur því að ég ætla að klára ferilinn hjá Arsenal. Ég er búinn að vera hjá félaginu síðan að ég var níu ára og hef lært að elska það. Ég hef horft á þá Patrick Vieira, Dennis Bergkamp og Cesc Fábregas koma upp og halda síðan sína leið," sagði Jack Wilshere.

„Nú eru að koma upp nýir leikmenn hjá félaginu eins og Aaron Ramsey, ég og  Kieran Gibbs. Vonandi getum við gert eitthvað gott saman. Ég elska þetta félag og vil fá að vera hluti af framtíð þess," sagði Wilshere.

„Liðið er að verða betra og betra með hverjum leik. Tímabilið byrjaði ekki vel og það vita allir. Ég ætla ekki að ljúga og segja að við höfum staðið okkur vel. Strákarnir eru hinsvegar farnir að þekkja betur inn á hvern annan og þeir eru að spila vel saman," sagði Wilshere.

„Leikurinn á móti West Brom var einn besti leikur liðsins á tímabilinu og liðið var að senda boltann eins og í gamla Arsenal-liðinu. Við erum líka farnir að vinna okkar leiki sem er frábært," sagði Wilshere.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×