Enski boltinn

Tevez ætlar ekki að andmæla refsingunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar greina frá því í kvöld að Carlos Tevez ætli að sætta sig þá refsingu sem Manchester City veitti honum fyrir að neita að spila með félaginu í leik í Meistaradeildinni fyrr í haust.

Tevez var sektaður um tveggja vikna laun og vikið úr starfi í jafn langan tíma fyrir að neita að koma inn á sem varamaður í leik gegn Bayern München.

Eftir leikinn sagði Roberto Mancini, knattspyrnustjóri félagsins, að Tevez myndi aldrei spila aftur undir hans stjórn. Tevez gaf út yfirlýsingu daginn eftir og sagði að um misskilning hefði verið að ræða.

Síðan þá hefur farið fram rannsókn og Mancini hefur meira að segja rétt fram sáttarhönd, ef Tevez myndi biðja hann og liðsfélaga sína afsökunar. City vildi upphaflega sekta Tevez um fjögurra vikna laun en því var hafnað af samtökum leikmanna í Englandi.

Það er óvíst hvort að Tevez muni aftur spila með City en samkvæmt fréttum fjölmiðla ytra mun hann vera sáttur við að fara frá félaginu þegar að opnað verður fyrir félagaskipti í janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×