Íslenski boltinn

Jóhannes Karl spilar með ÍA næsta sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson í búningi Huddersfield.
Jóhannes Karl Guðjónsson í búningi Huddersfield. Nordic Photos / Getty Images
Jóhannes Karl Guðjónsson er á leiðinni aftur í sitt gamla félag, ÍA, og mun spila með liðinu í Pepsi-deild karla næsta sumar. Þetta tilkynnti Jói Kalli á Facebook-síðunni sinni í kvöld auk þess sem að þetta var opinberað á karlakvöldi ÍA.

Jóhannes Karl hefur verið í atvinnumennsku síðan 1998 en hann var aðeins á átjánda aldursári þegar hann hélt utan. Þá hafði hann spilað örfáa leiki fyrir ÍA í efstu deild.

Hefur hann komið víða við á löngum ferli og spilað með Genk í Belgíu, RKC Waalwijk og AZ Alkmaar í Hollandi, Real Betis á Spáni og Aston Villa, Wolves, Leicester, Burnley og Huddersfield í Englandi þar sem hann er nú.

Jóhannes Karl hefur átt í samningaviðræðum við félag sitt, Huddersfield, um starfslok og líklegt að hann fái sig lausan áður en tímabilinu lýkur í Englandi í vor. Það hefur Vísir þó ekki fengið staðfest.

Jóhannes Karl er sonur Guðjóns Þórðarsonar og bróðir Þórðar og Bjarna Guðjónssonar, sem og Björns Bergmanns Sigurðarsonar. Hann tilkynnti vistaskiptin á Facebook í kvöld með þessum orðum:

„Sól slær silfri á voga sjáðu jökulinn loga. Allt er bjart fyrir okkur tveim því ég er að koma HEIM!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×