Enski boltinn

Wenger til stuðningsmanna Arsenal: Látið Adebayor í friði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar hér marki fyrir Arsenal á móti Tottenham.
Emmanuel Adebayor fagnar hér marki fyrir Arsenal á móti Tottenham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur biðlað til stuðningsmanna félagsins að bera virðingu fyrir Emmanuel Adebayor þegar Tógómaðurinn mætir Arsenal í fyrsta sinn sem leikmaður nágrannanna. Tottenham tekur á móti Arsenal á White Hart Lane klukkan 15.00 í dag.

Emmanuel Adebayor lék í þrjú ár hjá Arsenal en komst í síðan í ónáð hjá stuðningsmönnum Arsenal þegar hann elti peningana til Manchester City. Hann gerði svo illt verra með því hlaupa völlinn endilangan til þess að geta fagnað marki á móti Arsenal fyrir framan stuðningsmenn félagsins.

„Ég vil alls ekki að stuðningsmenn okkar einbeiti sér að Adebayor. Við viljum að fólkið styðji liðið á jákvæðan hátt. Fótboltaleikur er frábær skemmtun þegar allir reyna að njóta leiksins og búa til jákvætt andrúmsloft," sagði Arsene Wenger.

„Ég vil fá alla stuðningsmenn okkar til að hvetja bara okkar lið og gleyma öllu öðru. Ef leikurinn er góður þá verður alltaf athygli allra á honum," sagði Wenger.

Adebayor hefur skorað þrjú mörk í fyrstu þremur úrvalsdeildarleikjum sínum með Tottenham og þeir hafa allir unnist. Markatala Tottenham með Adebayor innanborðs er 8-1 en liðið tapaði tveimur fyrstu leikjunum án hans með markatölunni 1-8.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur en næsti leikur er líka alltaf sá mikilvægasti í þínu lífi. Liðið verður sterkara með hverjum sigri ekki síst þegar þú ert að koma út úr erfiðum kafla. Það er því mikilvægt fyrir okkur að vinna leiki og fá sjálfstraustið aftur," sagði Wenger.

Arsenal fékk bara eitt stig út úr fyrstu þremur leikjum sínum en hefur nú unnið tvo af síðustu þremur leikjum og á möguleika á að fara upp í efri hlutann vinni liðið nágranna sína í Norður-London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×