Enski boltinn

McClaren hættur hjá Nottingham Forest eftir aðeins tíu leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve McClaren.
Steve McClaren. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steve McClaren, fyrrum stjóri Middlesbrough og þjálfari enska landsliðsins, sagði í dag upp störfum hjá enska b-deildarliðinu Nottingham Forest eftir aðeins tíu leiki. McClaren snéi aftur til Englands í haust eftir að hafa þjálfað í Hollandi og Þýskalandi undanfarin ár.

McClaren hætti fljótlega eftir 1-3 tap Nottingham Forest á heimavelli á móti Birmingham í dag en eftir leikinn er Forrest-liðið í 21. sæti (af 24 liðum) með aðeins átta stig eftir tíu leiki. Forrest tapaði fimm af sex síðustu leikjum sínum undir stjórn McClaren þar af þeim tveimur síðustu með markatölunni 2-8.

McClaren gerði þriggja ára samning við Forest í sumar en hann hafði gert Twente að hollenskum meisturum eftir að hann var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Englendinga.

McClaren fær engan starfsloksamning og hann ætlar ekki að sækjast eftir einhverri lokagreiðslu frá félaginu að sögn talsmanns Nottingham Forest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×