Enski boltinn

David de Gea: Kom á óvart hvað Sir Alex er vingjarnlegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United hefur unnið alla leiki sem David de Gea hefur spilað.
Manchester United hefur unnið alla leiki sem David de Gea hefur spilað. Mynd/Nordic Photos/Getty
David de Gea ætlar að njóta lífsins hjá Manchester United og segist alveg þola það að fá smá gagnrýni á sig. De Gea hefur fengið að heyra það fyrir frammistöðu sína í fyrstu leikjum Manchester United en það hefur þó ekki komið að sök því liðið hefur unnið alla leiki sína með spænska markvörðinn innanborðs.

„Þetta er alveg eðlileg gagnrýni. Þegar þú gerir mistök, þó að þau séu ekki mörg, þá hefur pressan allan rétt á því að gagnrýna þig. Þetta gildir ekki síst um markverði sem eru alltaf í sviðsljósinu. Nú er það undir mér komið að breyta þessari neikvæðu gagnrýni í hrós," sagði

David de Gea.

„Ég ætla að bæta mig á hverri æfingu og í hverjum leik. Ég hef trú á minni getu og hvað ég get komið með inn í þetta lið. Það er frábært fólk í kringum mig og við getum gert flotta hluti á þessu tímabili. Ég verð aldrei klassa markvörður nema að ég haldi áfram að vaxa og passi upp á það að missa ekki trúna á sjálfan mig," sagði De Gea.

David de Gea er aðeins tvítugur en Manchester United keypti hann á 19 milljónir punda frá Atlético Madrid í sumar. De Gea hrósar andrúmsloftinu á Old Trafford og segir það líka hafa komið sér á óvart hvað Stjórinn Sir Alex Ferguson er vingjarnlegur maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×