Íslenski boltinn

Atli Sigurjónsson: Við erum vanir þessu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atli Sigurjónsson leikmaður Þórs gefur lítið fyrir að Akureyringar verði á nálum þegar þeir mæta KR í úrslitum Valitor-bikars karla í knattspyrnu á morgun. Hann segir leikinn hljóta að vera stóra stund fyrir Akureyrarbæ.

„Jú, ætli það ekki. Það hlýtur að vera. Þetta er í fyrsta sinn sem Þór fer í úrslit. KA fór reyndar einhvern tímann í úrslit en þeir áttu aldrei séns."

Töluverður rígur er milli KA og Þórs á Akureyri eins og gengur og gerist hjá nágrannafélögum. KA-menn hafa komist í úrslit án árangurs og Þórsarar geta því skotið grönnunum ref fyrir rass.

„Við erum svo sem ekkert að hugsa um þá. Ég held að þeir séu meira að hugsa um okkur."

Þórsarar heimsóttu Fram á Laugardalsvöllinn fyrr í sumar og eiga góðar minningar frá þjóðarleikvangnum.

„Við tókum þá 1-0 án þess að fara yfir miðju. Það gefur okkur gott fyrir laugardaginn."

Þórsarar spila í fyrsta sinn til úrslita í bikarnum og mætti ætla að þeir gætu verið stressaðir fyrir leikinn.

„Þetta er nú bara fótboltaleikur. Við höfum allir spilað þónokkra svona. Við höfum farið í gegnum yngri flokka og spilað úrslitaleiki á hverju sumri. Ég vil meina að við séum vanir þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×