Íslenski boltinn

Skúli Jón: Ætla ekki að koma við leikmenn Þórs inni í teig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skúli Jón Friðgeirsson leikmaður KR segir bikarúrslitaleikinn í fyrra hafa verið matröð. Skúli, sem fékk dæmda á sig vítaspyrnu í leiknum, ætlar ekki að koma við leikmenn Þórs inni í vítateig KR.

„Við erum klárir í slaginn og tilbúnir í hörkuleik. Vonum að þetta fari vel," segir Skúli sem man vel eftir leiknum frá því í fyrra þótt hann vilji gleyma honum sem fyrst.

„Leikurinn í fyrra var matröð á allan hátt. Fór til fjandans. Við ætlum alls ekki að endurtaka þann leik í ár. Vonandi gleymum við þeim leik sem fyrst, með sigri á laugardaginn,"

FH vann bikarinn í fyrra eftir 4-0 sigur á KR í úrslitaleiknum. KR-ingar fengu dæmdar á sig tvær vítaspyrnur í fyrri hálfleik, sú fyrri eftir brot Skúla Jóns á Atla Guðnasyni.

„Ég mun sjálfur passa mig vel á því að koma ekki við menn inni í teig. Vonandi fáum við ekki dæmdar á okkur tvær vítaspyrnur í fyrri hálfleik. Ég hef enga trú á því að þessi leikur endurtaki sig. Ef það gerist að þetta stefni í svipaða átt þá erum við betur undirbúnir en í fyrra," segir Skúli Jón.

Fjarvera Guðmundar Reynis Gunnarssonar og Óskars Arnar Haukssonar veikir KR-liðið. Örvfætta tvíeykið hefur farið á kostum á vinstri kantinum í sumar. Guðmundur Reynir er í leikbanni en Óskar Örn frá út leiktíðina vegna meiðsla.

„Þeir eru búnir að vera frábærir og erfitt að fylla í þeirra skörð. En við teljum okkur eiga nægan mannskap á bekknum og mikið talað um, sérstaklega í fjölmiðlum, að við séum með breiðan og góðan hóp. Það kemur vonandi í ljós á laugardaginn."

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra verður heiðursgestur á leiknum.

„Ég held að það skipti ekki öllu máli. Ég mun allavegna taka í höndina á honum og vona að hann veiti mér bikarinn í leikslok. Þá verð ég allavegna ánægður með hann," sagði Skúli Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×