Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Erum sem betur fer með Óskar í markinu

Ari Erlingsson skrifar
Mynd/Stefán
Ólafur Örn Bjarnason var ágætlega sáttur með eitt stig úr leik kvöldsins gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks. Ólafur þakkaði sérstaklega Óskari Péturssyni markmanni fyrir stigið.

„Ég var mjög ósáttur með fyrri hálfleikinn. Menn voru bara á skokkinu og það er ekki hægt gegn liði eins og Breiðablik. Í seinni hálfleik kom meiri vilji og kraftur en samt vantaði mikið upp á hjá okkur,“ sagði Ólafur Örn.

„Ég get því bara verið ánægður með eitt stig í þessum leik. Þó maður hefði nú alveg viljað stela þessu í lokin en einhvern vegin þurfum við að vera rólegri þegar við færum okkur framar á völlinn. Í kvöld fannst mér við klaufar þegar kom að því klára sóknirnar, tókum slæmar ákvarðanir sem höfðu áhrif á liðið. Blikarnir fengu sín færi í leiknum en sem betur fer erum við með Óskar í markinu og það er hans starf að verja og hann gerði það vel í kvöld.“

Aðspurður með framhaldið hjá Grindavíkurliðinu hafði Ólafur þetta að segja:

„Menn ná ekkert að slappa almennilega af. Það er ákveðinn pressa að vera svona nálægt botninum. Við hinsvegar ætlum að vinna okkur út úr fallskrapinu á næstunni. Það er klárt mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×