Enski boltinn

McLeish orðaður við Fulham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex McLeish, stjóri Birmingham.
Alex McLeish, stjóri Birmingham. Nordic Photos / Getty Images
Alex McLeish, knattspyrnustjóri Birmingham, hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Fulham sem losnaði skyndilega í gær.

Samningur Mark Hughes rann út í gær og ákvað hann að klára ekki viðræður um nýjan samning. Hann var sterklega orðaður við Aston Villa en forráðamenn liðsins lýstu því svo yfir að Hughes kæmi ekki til greina sem næsti stjóri liðsins.

Nokkur nöfn hafa verið nefnd til sögunnar í enskum fjölmiðlum - þeirra á meðal Martin O'Neill og Martin Jol. En samkvæmt fréttavef Sky Sports er Alex McLeish, stjóri Birmingham, efstur á blaði forráðamanna Fulham.

Birmingham féll úr ensku úrvalsdeildinni nú í vor en stjórn félagsins lýsti því engu að síður yfir að það myndi halda tryggð við McLeish. Birmingham vann enska deildabikarinn í vetur og keppir því í Evrópudeild UEFA á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×