Enski boltinn

Hiddink. Ég get alveg þjálfað landslið og félagslið á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink fagnar hér bikarmeistaratitlinum með leikmönnum Chelsea árið 2009.
Guus Hiddink fagnar hér bikarmeistaratitlinum með leikmönnum Chelsea árið 2009. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guus Hiddink, þjálfari tyrkneska landsliðsins, hefur verið sterklega orðaður við Chelsea á síðustu dögum, og hann ýtti aðeins undir þær sögusagnir í viðtalið við tyrkneskt dagblað.

Hiddink gerði frábæra hluti með Chelsea þegar hann tók við liðinu á miðju tímabili fyrir tveimur árum. Hiddink hélt þó ekki áfram með liðið þar sem hann var upptekinn sem þjálfari rússneska landsliðsins og Carlo Ancelotti var því ráðinn í staðinn.

„Ég er fullur af orku svo að það myndi henta mér betur að stýra félagsliði en landsliði. Ég vil helst getað unnið á hverjum degi og finnst ég þurfa að gera meira en ég geri í dag," sagði Guus Hiddink í viðtali við tyrkneska blaðið Haberturk.

„Ég hef þjálfað Ástralíu og PSV á sama tíma og gerði það líka með Rússland og Chelsea. Ég var þá mjög ánægður en við skulum sjá til hvað gerist með tyrkneska landsliðið," sagði Hiddink.

Hiddink segist ekki hafa fengið nein formleg tilboð um að taka við einhverju félagsliði.

„Ég hef ekki fengið neitt tilboð ennþá og ég hef ekki sagt yfirmanni tyrkneska sambandsins mína skoðun. Hann er samt gáfaður maður og ég er viss um að hann fylgist með heimsfréttunum," sagði Hiddink.

Tyrkland er eins og er í 3. sæti í sínum riðli í undankeppni EM 2012, stigi á eftir Belgíu og sex stigum á eftir toppliði Þýskalands. Liðið mætir Belgíu á föstudaginn og tap í þeim leik færi langt með að enda vonir Tyrkja um að komast í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×