Enski boltinn

Chelsea-menn bjartsýnir á að Hiddink taki við liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink vann enska bikarinn með Chelsea.
Guus Hiddink vann enska bikarinn með Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea ætlar að gera allt til þess að fá Hollendinginn Guus Hiddink í stjórastól félagsins fyrir næsta tímabil en félagið leitar nú að eftirmanni Carlo Ancelotti sem var rekinn á dögunum.

Hiddink er fastur í starfi sem landsliðsþjálfari Tyrklands en Guardian hefur heimildir fyrir því að forráðamenn Chelsea eru bjartsýnir á að honum takist að losa sig fyrir haustið enda hefur gengi tyrkneska landsliðsins ekki verið gott í undankeppni EM.

Roman Abramovich fékk Hiddink til að stýra Chelsea-liðinu í þrjá mánuði í lok 2008-2009 tímabilsins og komu þá 34 stig í hús í 13 leikjum auk þess að félagið vann enska bikarinn. Hiddink hefur síðan starfað sem ráðgjafi í leikmannamálum og það hefur verið lengi ljóst að hann er efsti maður á óskalista Rússans.

Hinn 64 ára gamli Hiddink er með samning við tyrkneska sambandið út undankeppni EM 2012 og hefur vanalega staðið við alls sína samninga á ferlinum. Tyrkneska liðið er í 3. sæti riðilsins og tapist næsti leikur á móti Belgíu (2. sæti) væri vonin um sæti í úrslitakeppninni orðin afar veik.

Fari svo gæti komið upp sú staða að tyrkneska sambandið væri til í að semja um starfslok við Hiddink sem myndi jafnframt opna dyrnar fyrir því að Hollendingurinn mæti aftur á Brúnna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×