Enski boltinn

Hurst: Vandræði West Ham hófust með Íslendingunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Geoff Hurst, einn allra frægasti leikmaður West Ham frá upphafi, segir að vandræði félagsins hafi byrjað þegar að félagið var keypt af Íslendingunum Björgólfi Guðmundssyni og Eggerti Magnússyni.

Eins og Hurst bendir á í pistli sínum í Evening Standard nú fyrr í vikunni hefur West Ham gengið skelfilega á yfirstandandi tímabili. Liðið er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

West Ham verður að vinna næstneðsta liðið, Wigan, á morgun til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.

„Fall væru skelfileg niðurstaða fyrir félagið sem ég þjónaði í fimmtán ár. Það er óhjákvæmilegt að við missum okkar bestu leikmenn ef við missum úrvalsdeildarsætið," skrifar Hurst og bendir til að mynda á Scott Parker, Matthew Upson og Robert Green í þeim efnum.

„Þetta væru afleiðingarnar fyrir þeirri niðursveiflu sem hófst þegar að Terry Brown, fyrrum stjórnarformaður félagsins, ákvað að selja íslenskum fjárfestingahópi hlut sinn."

Hann segir að áður fyrr hafi félagið hafi verið rótgróið félag í efstu deild á árum áður og framleitt marga mjög sterka leikmenn eins og Rio Ferdinand, Frank Lampard, Joe Cole og Michael Carrick.

„En á síðustu tíu árum höfum við verið með sex mismunandi knattspyrnustjóra og ég er viss um að fall myndi verða til þess að við skiptum um stjóra enn einu sinni í sumar."

Hurst segir að það hafi verið skelfileg ákvörðun að ráða Avram Grant sem knattspyrnustjóra enda hafði hann ekki það sem þarf til fyrir starf sem þetta. Ráða þurfi stjóra sem geti komið félaginu aftur upp í ensku úrvalsdeildina sem allra fyrst.

„Annars sé ég fyrir mér heldur dapra framtíð, minnkandi tekjur félagsins og auðar sætaraðir á Ólympíuleikvanginum þegar við flytjum þangað."

Hurst er eini leikmaðurinn í sögu heimsmeistarakeppninnar sem hefur skorað þrennu í úrslitaleik. Það gerði hann árið 1966, er England vann sinn eina heimsmeistaratitil til þessa eftir 4-2 sigur á Vestur-Þjóðverjum í úrslitaleik á Wembley-leikvanginum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×