Enski boltinn

Mancini: Tevez á að fara ef hann er óánægður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez, leikmaður Manchester City.
Carlos Tevez, leikmaður Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að Carlos Tevez ætti að fara frá félaginu ef hann sé óánægður þar.

Framtíð Tevez hefur verið í mikilli óvissu en hann fór fram á það með formlegum hætti í desember síðastliðnum að verða seldur frá félaginu.

„Hann er með fimm ára samning en hef alltaf sagt að leikmaður eigi að vera hjá félagi þar sem hann hefur trú á verkefninu og er hamingjusamur,“ sagði Mancini við enska fjölmiðla í gær en City mætir Stoke í úrslitum ensku bikarkeppninnar í dag.

„Ef ég er óánægður hjá City fer ég annað. Það sama gildir um leikmenn. Ef þeir eru óánægðir þá væri það betra fyrir félagið ef þeir myndu fara. Þetta á ekki bara við um Carlos heldur alla leikmenn.“

„Ég hef heldur aldrei sagt að Carlos vilji fara. Ég sagði að hann þyrfti að taka þá ákvörðun sjálfur. Hann hefur skorað 22 mörk á tímabilinu og það er mjög mikilvægt.“

Tevez dró á endanum félagaskiptabeiðnina til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×