Enski boltinn

Tevez: Þarf tíma til að íhuga framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez segir að hann þurfi tíma til að íhuga hvað hann eigi að gera í framtíðinni. Hann sagði þó að það væru engin vandamál á milli hans og Roberto Mancini, stjóra Manchester City.

Tevez lagði fram formlega beiðni um félagaskipti í desember síðastliðinum en dró hana svo til baka. Mancini sagði svo í gær að Tevez ætti að fara frá félaginu ef hann væri óánægður.

City tryggði sér í gær enska bikarmeistaratitilinn og var Tevez í byrjunarliði City. Hann hafði verið frá í þrjár vikur vegna meiðsla.

„Það er erfitt að vera svo langt frá dætrum mínum,“ sagði Tevez sem á tvær ungar dætur sem búa með móður sinni í Argentínu.

„Ég mun hugsa vel og lengi um það sem er best fyrir mig. Fyrst vil ég hreinsa hugann. Ég er mjög rólegur en vil taka það fram að það eru engin vandamál á milli mín og Roberto eða stjórnar félagsins.“

„Það hefur verið ýmislegt sagt um Roberto og því vil ég taka þetta skýrt fram. Ef ég verð áfram hjá City þarf ég að hugsa um hvað ég get afborið mikið. Sannleikurinn er sá að þetta hefur verið mjög erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×