Erlent

Osama bjó í víggirtu stórhýsi - allt rusl var brennt

Aðeins örfáir vissu af leiðangri bandarískra sérsveitarmanna í Pakistan þar sem ætlunin var að handsama eða drepa einn hættulegasta hryðjuverkamann heims, Osama Bin Laden.

Þeir komu á fjórum þyrlum að víggirtu stórhýsi þar sem hann dvaldist, í bænum Abbottabad sem er um 100 kílómetra norðan við höfuðborgina Islamabad.

Húsið sem Osama bjó í sem var girt af með ríflega fimm metra háum vegg, og þar ofan á hafði gaddavír verið komið fyrir. Athygli Bandaríkjamanna var vakin á byggingunni þegar í ljós kom að húsið, sem er það stærsta og víggirtasta í bænum, var hvorki með símatengingu né nettengingu, og að allt rusl frá húsinu var brennt. Húsið er sagt um átta sinnum stærra en stærstu húsin í grenndinni.

Fylgst hafði verið með húsinu í marga mánuði enda það talið hafa verið byggt sérstaklega til að hýsa hryðjuverkamann. Síðar var ljóst að sá hryðjuverkamaður var sjálfur Osama.

Árásin tók fljótt af. Fjórir karlmenn sem reyndu að verja Osama voru drepnir, auk konu sem sagt er þeir hafi notað til að hlífa sjálfum sér. Samkvæmt talsmönnum bandaríkjastjórnar var Osama skotinn í höfuðið.

Sérsveitarmennirnir tóku lík Osama með sér í þyrlu. Til að enginn vafi léki á að þeir hefðu drepið rétta manninn létu þeir sérstakt tölvuforrit skanna myndir af andliti og líkama líksins. Að því loknu var líkinu varpað í sjóinn, eftir að um það hafði verið búið samkvæmt íslömskum hefðum. Nákvæmlega hvernig það var gert hefur hins vegar ekki verið skýrt nánar. Ekki var vitað um neina þjóð sem myndi vilja taka við líkamsleifum hryðjuverkamannsins og því talið vænlegast að varpa þeim í sæ. Nákvæmar upplýsingar um hvar líkið fór í sjóinn hafa ekki verið gefnar upp.

Sterkur grunur vaknaði í byrjun árs um að Osama byggi í Abbottabad. Um miðjan febrúar töldu hermenn sig hafa fengið það staðfest og hafa síðan skipulagt árásina. Bandaríkjaforseti, Barack Obama, hefur setið fundi með öryggisráðinu frá marsmánuði þar sem hann var upplýstur um stöðuna.

Síðasta föstudag, 29. apríl, gaf Obama fyrirskipun um árásina.


Tengdar fréttir

Osama Bin Laden er látinn

Osama Bin Laden, leiðtogi Al-Kaída-hryðjuverkasamtakanna, er látinn. Þetta staðfesti Barack Obama Bandaríkjaforseti í ávarpi til þjóðar sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×