Enski boltinn

Nigel de Jong: Ég var meðhöndlaður eins og stríðsglæpamaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel de Jong sést hér brjóta á Xabi í úrslitaleiknum síðasta sumar.
Nigel de Jong sést hér brjóta á Xabi í úrslitaleiknum síðasta sumar. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollenski landsliðsmaðurinn Nigel de Jong var langt frá því að vera vinsælasti knattspyrnumaður heimsins eftir að hann komst upp með fólskulega tæklingu á Xabi Alonso í úrslitaleik HM síðasta sumar. Hann lenti síðan í því að fótbrjóta Hatem Ben Arfa fyrr á þessu tímabili og hefur nú slæmt orð á sér.

Nigel de Jong talar um það í nýju viðtali að hann hafi fengið ósanngjarna og ómanneskjulega meðferð eftir úrslitaleikinn á HM. Hann telur að sumt fólk hafi gengið alltof langt.

„Ég hafði það á tilfinningunni að fólk væri á eftir mér og væri að reyna að skaða mig. Nigel de Jong var allt í einu orðinn óvinur þjóðarinnar númer eitt og fólk meðhöndlaði mig eins og ég væri stríðsglæpamaður," sagði De Jong í viðtali í hollenska blaðinu De Volkskrant.

„Dómarinn hefði vissulega getað gefið mér rautt spjald fyrir brotið og þetta leit ekki vel út þegar ég sá tæklinguna aftur í sjónvarpinu. Ég sá samt Xabi Alonso aldrei koma og var bara að horfa á boltann," útskýrir

De Jong.

De Jong tjáði sig líka um tæklinguna á Newcastle-manninn Hatem Ben Arfa sem fótbrotnaði illa eftir viðskipti sín við Hollendinginn harða.

„Þetta var mjög óheppileg tækling. Ég var mjög leiður að hafa fótbrotið hann en það var aldrei markmiðið mitt að brjóta á honum. Það trúir manni samt enginn þegar ég segi þetta," sagði þessi 26 ára gamli miðjumaður sem var settur í bann hjá hollenska landsliðinu eftir þess tæklingu sína á Ben Arfa. Hann er nú farinn að spila með landsliðinu á nýjan leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×