Enski boltinn

Carlos Tevez í sérmeðhöndlun í Mílanó á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez, fyrirliði Manchester City, ætlar að gera allt sem hann getur til þess að ná því að spila bikarúrslitaleikinn á móti Stoke á Wembley en til að Roberto Mancini leyfi honum að spila þá þarf Argentínumaðurinn að spila deildarleikinn á móti Tottenham fjórum dögum fyrr.

Manchester City mætir Tottenham í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar 10.maí en sá leikur gæti verið óopinber úrslitaleikur um síðasta sætið inn í Meistaradeildina. Mancini hefur sagt Tevez og Jerome Boateng, sem er líka meiddur, að þeir þurfi að spila Tottenham-leikinn ætli þeir að vera með á Wembley.

Carlos Tevez fór til Mílanó á Ítalíu þar sem hann verður í sérmeðhöndlun í sjö til tíu daga. Hann beið ekki eftir undanúrslitaleiknum á móti Manchester United og var því ekki á Wembley þegar City-liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Tevez vildi fara til sjúkraþjálfara síns sem hefur hjálpað honum áður í stað þess að treysta á læknalið City.

„Hann er á batavegi og ég vona að ég geti notað hann í bikarúrslitaleiknum. Það er samt ljóst að Carlos og Jerome verða að spila áður en kemur að úrslitaleiknum til þess að geta verið með," sagði Roberto Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×