Enski boltinn

Titilvonir Arsenal litlar eftir tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsenal tapaði í dag fyrir Bolton, 2-1, og á fyrir vikið litla sem enga möguleika á að vinna enska meistaratitilinn nú í vor.

Arsenal hefur nú aðeins unnið einn leik í síðustu níu deildarleikjum sínum og aðeins fengið átta stig af 27 mögulegum síðan í byrjun mars.

Liðið er nú átta stigum á eftir Manchester United á toppi deildarinnar og því hafa þessi töpuðu stig - nítján talsins - verið liðinu ansi dýrkeypt.

Það var Ísraelsmaðurinn Tamir Cohen sem skoraði sigurmark Bolton í uppbótartíma leiksins. Hann skoraði með skalla af stuttu færi.

Cohen lyfti þó upp treyju sinni og sýndi bol sem var með mynd af föður hans, Avi Cohen, sem lést í mótorhjólaslysi í lok síðasta árs. Þetta var augljóslega tilfinningarík stund fyrir Cohen og mátti sjá að hann felldi tár.

Avi Cohen er vel þekktur í Bretlandi enda lék hann með bæði Liverpool og Rangers á sínum tíma.

Liðsfélagar hans fögnuðu markinu hans vel og innilega en þeirra á meðal var Grétar Rafn Steinsson sem lék allan leikinn fyrir Bolton í dag.

Daniel Sturridge kom Bolton yfir á 38. mínútu er hann skallaði í netið af stuttu færi. Sturridge fylgdi eftir skalla Gary Cahill sem var varinn á marklínu.

Bolton fékk tækifæri til að komast í 2-0 í upphafi síðari hálfleiks er Johan Djourou braut á Sturridge í vítateig Arsenal. Wojicech Szczesny varði þó arfaslaka spyrnu Kevin Davies af vítapunktinum.

Aðeins mínútu síðar var Arsenal búið að jafna metin. Cesc Fabregas náði að stilla upp fyrir Robin van Persie sem skoraði með laglegu skoti af vítateigslínunni.

Arsenal náði þó ekki að færa sér þennan meðbyr í nyt og tapaði svo leiknum í uppbótartíma, sem fyrr segir.

Bolton er í áttunda sæti deildarinnar með 46 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×