Enski boltinn

Sturridge: Stuðningsmennirnir áttu þetta inni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Daniel Sturridge, leikmaður Bolton, segir að stuðningsmenn liðsins hafi átt það skilið að sjá sína menn fagna sigri gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Bolton tapaði fyrir Stoke, 5-0, í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar um síðustu helgi en um 25 þúsund stuðningsmenn ferðuðust frá Bolton til Lundúna til að sjá leikinn sem fór fram á Wembley-leikvanginum.

Liðið vann svo 2-1 sigur á Arsenal í dag og skoraði Sturridge fyrra mark liðsins. Þar sem hann er í láni frá Chelsea gat hann ekki tekið þátt í bikarleiknum um síðustu helgi.

„Við vildum sýna stuðningsmönnunum að við búum yfir þeirri ástríðu sem þarf til að vinna leiki eins og þessa. Það voru margir óánægðir eftir síðustu helgi og við gerðum þetta fyrir stuðningsmennina í dag," sagði Sturridge eftir leikinn.

Tamir Cohen skoraði sigurmark Bolton í leiknum en hann fagnaði markinu með því að fara úr keppnistreyjunni og sýna bol með mynd af föður sínum sem lést í mótorhjólaslysi í lok síðasta árs.

„Ég kom inn á til að verja jafnteflið," sagði Cohen eftir leikinn. „Ég er svo mjög ánægður með að hafa skorað þetta mark enda hefur þetta verið afar tilfinningaþrungið tímabil fyrir mig."

„Ég er ánægður með að við unnum leikinn og fengum þrjú stig í viðbót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×