Enski boltinn

Ancelotti: Það getur allt gerst

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Frenando Torres er loksins farinn að skora fyrir Ancelotti.
Frenando Torres er loksins farinn að skora fyrir Ancelotti. Nordic Photos/Getty Images
Knattspyrnustjóri Chelsea, Ítalinn Carlo Ancelotti, segir að allt geti gerst í titilbaráttunni á Englandi og segir Chelsea ennþá eiga möguleika á titlinum.

Ancelotti veit það af eigin raun að lið geta hent frá sér titlinum þegar skammt er eftir af tímabilinu. Árið 2000 var Ancelotti við stjórnvölinn hjá Juventus á Ítalíu og hafði liðið fimm stiga forystu í deildinni þegar þrjár umferðir voru eftir. Þrátt fyrir það varð Lazio meistari í lok leikíðar. Chelsea er nú sex stigum á eftir Manchester United þegar fjórar umferðir eru eftir.

„Ég tapaði titlinum þegar við vorum með níu stiga forystu og átta leikir eftir af tímabilinu. Það getur allt gerst. Það var erfitt að sjá fyrir tveimur mánuðum að við næðum að koma okkur aftur í baráttuna og ég er mjög sáttur með það,“ sagði Ancelotti.

Chelsea mætir Tottenham á laugardaginn í ensku deildinni. „Ef við náum að vinna Tottenham þá setjum við pressu á Man. United fyrir leikinn gegn Arsenal. Það getur allt gerst,“ undirstrikar Ancelotti sem greinilega hefur ekki misst vonina. Man. United og Chelsea munu svo mætast á Old Trafford eftir tvær vikur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×