Íslenski boltinn

Þórir: Alltaf til varaplön

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, er bjartsýnn á að allir leikir í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla geti farið fram á réttum tíma.

Veðrið hefur ekki verið með besta móti í apríl og eru vellir liðanna í deildinni í misjöfnu ástandi. Einna verst er ástandið hjá Fylki og Víkingi sem bæði eiga heimaleik á mánudagskvöldið.

„Veðrið hefur að minnsta kosti ekki áhrif á undirbúning mótsins,“ sagði Þórir í samtali við Vísi en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „Veðrið er ekki eins og við hefðum viljað hafa það í dag en við skulum sjá hvað gerist um helgina.“

Hann segir að KSÍ geti brugðist við ef einhverjir vellir verða ekki tilbúnir. „Það eru alltaf sömu varaplönin og þegar leikir á Íslandi eru annars vegar. Ef leikur getur ekki farið fram af einhverjum ástæðum þá finnum við lausnir á því. Það höfum við gert hingað til og gerum áfram.“

Opnunarleikur mótsins verður á Kópavogsvelli á sunnudagskvöldið en sá völlur er upphitaður og lítur vel út. Annars þýðir lítið annað en að bíða og sjá til hvernig næstu dagar verða.

„Við skulum sjá hvað morgundagurinn og laugardagurinn beri í skauti sér. Eftir það munum við taka ákvörðun. Mér sýnist að upphafsleikur mótsins geti farið fram á réttum tíma og stað. Ég er bjartsýnn á að allir aðrir leikir í fyrstu umferðinni fari fram eins og áætlað er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×