Íslenski boltinn

Sævar Þór: Steinrotaðist og man fyrst eftir mér í klefanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Bera þurfti Sævar Þór Gíslason, leikmann Selfoss, af velli eftir ljótt samstuð við Daða Lárusson, markvörð Hauka, í leik liðanna í gær.

Sævar Þór er á ágætum batavegi nú en hann sagði í samtali við Vísi í dag að hann væri aumur í kjálka og tveimur tönnum fátækari.

„Ja, ég er allavega vakandi núna," sagði hann í léttum dúr. „En ég man ekkert eftir þessu. Ég man ekki einu sinni eftir því að hafa reynt að standa upp. Ég man fyrst eftir mér inn í búningsklefanum."

„Það síðasta sem ég man var að Viktor sendi boltann. Svo bara er allt svart. Það var ansi ljótt að sjá þetta í sjónvarpinu enda bara algjört knock-out."

Sævar segir að hann hafi aldrei áður rotast í leik en að hann hafi ekki tekið það í mál að fara upp á sjúkrahús.

„Nei, ég vildi ekki fara í sjúkrabílinn enda taldi ég að þetta yrði í lagi. Það var svo vakað yfir mér í nótt og ég er ágætur núna. Ég tel að ég hafi að mestu sloppið við heilahristing - ég er með smá seyðing í hausnum. Ég er heldur ekki kjálkabrotinn en missti þó tvær tennur og tungan er fjórföld enda beit ég hana í tætlur," sagði hann.

Selfoss vann leikinn, 3-2, og Sævar var ánægður með það. „Ég er gríðarlega ánægður með sigurinn," bætti hann við.

Valgarður Gíslason ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins var á vellinum og tók myndir af atvikinu sem má sjá hér fyrir neðan. Samantekt úr leiknum má svo sjá hér.

Sævar Þór borinn af velli í gær.Mynd/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×