Erlent

Óttast að Fritzl svipti sig lífi

Óttast um líf ófreskjunnar frá Amstatten.
Óttast um líf ófreskjunnar frá Amstatten.

Fangelsismálayfirvöld í Austurríki hafa aukið eftirlit með Josef Fritzl sem í síðustu viku var dæmdur til ævilangrar vistunar á hæli fyrir geðsjúka vegna dóms fyrir nauðgun, sifjaspell og morð. Talið er að hann muni reyna að svipta sig lífi og á að koma í veg fyrir það. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu í dag.

Fritzl, sem er sjötíu og þriggja ára, fangelsaði dóttur sína í kjallaradýflissu í nærri aldarfjórðung, nauðgaði henni oftsinnis og gat með henni sjö börn. Eitt þeirra var hann dæmdur fyrir að myrða en slæmar aðstæður hafi valdið dauða barnsins skömmu eftir fæðingu. Fritzl játaði á sig öll ódæðin eftir að upptaka af vitnisburði Elísabetar dóttur hans var spilaður í dómssal. Síðar kom í ljós að Elísabet Fritzl var viðstödd réttarhöldin þann dag og mun faðir hennar hafa séð hana og játað á sig alla ákæruliði skömmu síðar.

Fritzl er nú í fangaklefa í fangelsinu í bænum St. Pölten þar sem réttað var í málinu meðan hann bíður flutnings í hæli fyrir geðsjúka þar sem hann verður vistaður.

Yfirmaður fangelsins segir að geðheilsu Fritzl hafi mjög hrakað frá dómsuppkvaðningu. Klefafélaga hans hafi verið falið að hafa miklar gætur á Fritzl og tilkynna ef breyting verði á hegðun hans.

Fangaverðir fara með reglulegu millibili og oft að klefanum og kanna líðan hans. Geðlæknir sem dómstóllinn skipaði til að meta Fritzl og geðheilsu hans heimsækir hann daglega fram að flutningi á hælið. Fangelsismálayfirvöld í St. Pölten segja Fritzl fyrirmyndarfanga og það væri brot á mannréttindum hans að koma fyrir myndavél í klefanum til að fylgjast með honum. Því sé þessi leið farin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×